Í ljósi smita sem greinst hafa undanfarna daga í tengslum við Breiðdals- og Stöðvarfjarðarskóla hefur verið ákveðið að bjóða upp á auka sýnatöku í kvöld, 16. nóvember, bæði á Breiðdalsvík og Stöðvarfirði.
Tímasetningar sýnatöku:
Kl. 18-18:30 á Breiðdalsvík (sýnatakan verður staðsett í grunnskólanum)
Kl. 20-20:30 á Stöðvarfirði (sýnatakan verður staðsett í grunnskólanum)
Nemendur og starfsfólk í grunn- og leikskóla, ásamt foreldrum, systkinum og öðrum sem tengjast, eru hvattir til að mæta í PCR sýnatöku. Sýnatakan er opin öllum sem vilja nýta sér það og við hvetjum íbúa til þess að mæta.
Einstaklingar bóka sér sjálfir sýnatöku inná heilsuvera.is, líka fyrir sín börn, og koma síðan með strikamerki í sýnatöku. Ekki þarf að bóka tíma. Ef illa gengur að bóka í sýnatöku er í lagi að mæta á staðinn og fá aðstoð við að skrá í sýnatöku.
Mikilvægt er að halda góðu bili í röðinni á sýnatökustað og leitast við að halda í a.m.k. metra á milli fólks, nota andlitsgrímur og stoppa stutt.
Eftir sýnatöku:
- Þeir sem finna fyrir einkennum sem geta bent til Covid-19 og koma í PCR sýnatöku eiga að halda sig heima þar til niðurstöður úr sýnatöku liggja fyrir.
- Þeir sem finna ekki fyrir neinum einkennum og koma í PCR sýnatöku er ráðlagt að halda sig til hlés og fylgja reglum um smitgát þar til niðurstöður úr sýnatöku liggja fyrir, það er þó í lagi að sækja vinnu eða sinna öðrum erindagjörðum innan skynsamlegra marka.
ATH: Þeir sem eru í sóttkví þurfa ekki að mæta í þessa sýnatöku enda verða þeir einstaklingar boðaðir í sýnatöku undir lok sóttkvíar. Ef um er að ræða einstakling í sóttkví sem er farinn að finna fyrir einkennum er í lagi að viðkomandi mæti í sýnatöku en fari þá í öllu eftir reglum um sóttkví, haldi sig frá öðrum á sýnatökustað og láti vita af því að hann sé í sóttkví. Athugið einnig að neikvæð niðurstaða hjá þeim í sóttkví styttir ekki lengd sóttkvíar, heldur þarf að mæta í sýnatöku skv. fyrirmælum rakningateymis við lok sóttkvíar.