Íbúar í Fjarðabyggð fjölmenntu á Fáskrúðsfirði, þar sem lýðveldisdeginum var fagnað. Þessi litla snót var á meðal þeirra fjölmörgu barna sem biðu þolinmóð eftir að fá 17. júní-blöðru fyrir skrúðgönguna.
Það er kominn 17. júní!
Dagurinn hófst á hressandi víðavangshlaupi, sem hefð er fyrir að hátíðardagskráin hefjist á. Allir eru sigurvegarar og fengu þátttakendur flottan verðlaunapening að hlaupi loknu.
Að skrúðgöngu lokinni, sem fór frá bátnum Rex að hátíðarsvæðinu, bauð Páll Björgvin Guðmundsson, bæjarstjóri, hátíðargesti velkomna og fjallkona Fjarðabyggðar flutti ljóð. Athygli vakti að fjallkonunni var ekið að hátíðarsvæðinu á glæsilegum blæjubíl.
Því næst steig sjálfur Benedikt búálfur á svið ásamt þeim Tóta tannálfi og Jósafar mannahrelli. Einnig fluttu Anya Hrund Shadock og Daníel Kári Guðjónsson tónlistaratriði og hátíðargestir fengu einnig að spreyta sig á nokkrum vel völdum „Minute to win it“ þrautum, þar á meðal bæjarstjórinn.
Hoppukastalar og andlitsmálun naut ekki síður hylli hátíðargesta, sérstaklega þeirra sem yngri voru, að ógleymdum 17. júní blöðrum og hinum hefðbundna sleikibrjóstsykri og -snuðum.
Óhætt er að segja að lánið hafi leikið við gesti og skipuleggjendur hátíðarinnar hvað veðrið snerti, en skömmu áður en skrúðgangan hófst, rigndi hressilega.
Um skipulagningu hátíðardagskrár og veitingasölu sá umf. Leiknir á Fáskrúðsfirði. Atriði með Benedikt búálfi var í umsjón Leikfélags Norðfjarðar.