mobile navigation trigger mobile search trigger
19.06.2017

Þjóðhátíðardagurinn í Fjarðabyggð

Fjöldi fólks var samankominn á Stöðvarfirði á laugardag og naut glæsilegrar dagskrár.

Þjóðhátíðardagurinn í Fjarðabyggð
Froðurennibrautin vakti mikla lukku.

Dagurinn hófst með skrúðgöngu frá Nýgræðingi, í gegnum bæinn og að hátíðarsvæðinu sem var á Balanum. Þar tóku við ávörp Fjallkonunnar og Pálínu Margeirsdóttur, bæjarfulltrúa. Næst tóku við tónlistaratriði þar sem tónlistarfólk úr sveitarfélaginu lét ljós sitt skína. Meðal þeirra sem komu fram var Skólahljómsveitin Töffararnir sem lék þekkt lög af mikilli list og Anya Hrund Shaddock sem lék á hljóðfæri og söng. Hún lét ekki slá sig út af laginu þótt rafmagnið færi af þegar hún var í miðjum flutningi á laginu Vegbúinn eftir KK.

Meðan á tónlistarflutningnum stóð voru hoppukastalar blásnir upp og börnin þustu í þá. Einnig var boðið upp á andlitsmálningu. Næsti dagskrárliður var leikir á Balanum en það er siður sem hefur tíðkast á Stöðvarfirði á mannamótum eins og þessum. Um ýmsa gamaldags leiki var að ræða og var því afar vel tekið. 

Síðasti dagskrárliðurinn var froðurennibraut sem Slökkviliðið hafði komið upp. Börnin voru afar ánægð með þetta og fjölmörg þeirra létu sig gossa niður rennibrautina og enduðu daginn öll út í froðu.

Í ávarpi sínu hvatti Pálína fólk til að njóta alls þess sem Stöðvarfjörður hefði upp á að bjóða. Það var nákvæmlega það sem gestir hátíðarhaldanna gerðu. Fjöldi fólks sótti 17. júní kaffi á Kaffi Söxu sem er í gamla kaupfélagshúsinu. Eftir kaffið gekk fólk um, leit við í Steinasafni Petru, á Salthússmarkaðnum, Gallerí Snærós, Gallerí Svarthol, á Byggðasafni Antons og í Brekkunni. 

Veg og vanda af hátíðarhöldunum hafði Ungmennafélagið Súlan með Jóhönnu Guðnýju Halldórsdóttur í forsvari. Óhætt er að segja að þeim hafi tekist afar vel til með hátíðarhöldin og var mikil ánægja með þau hjá gestum sem voru á öllum aldri og úr öllum bæjarkjörnum sveitarfélagsins.

Fleiri myndir:
Þjóðhátíðardagurinn í Fjarðabyggð
Töffararnir á sviði. Þeir nutu aðstoðar Jósefs Friðrikssonar.
Þjóðhátíðardagurinn í Fjarðabyggð
Froðurennibrautin
Þjóðhátíðardagurinn í Fjarðabyggð
Verið að blása hoppukastalana upp.
Þjóðhátíðardagurinn í Fjarðabyggð
Margt var um manninn á Balanum.

Frétta og viðburðayfirlit