Þróttur varð bikarmeistari kvenna í blaki um helgina er liðið vann HK í úrslitaleik. Leiknum lauk með 3-2 sigri Þróttara en leikið var í Digranesi, á heimavelli HK.
Til hamingju Þróttur! - Þróttur Neskaupstað bikarmeistari í blaki
Þróttur vann fyrstu hrinuna með fjögurra stiga mun, 25-21.
Það leit lengi vel út fyrir að Þróttur myndi einnig vinna aðra hrinu leiksins en eftir annað leikhlé HK tók liðið við sér og vann hrinuna með tveggja stiga mun, 25-23. Staðan því 1-1 að tveimur hrinum loknum.
Þriðja hrina var svo æsispennandi frá upphafi til enda en HK byrjaði hana þó töluvert betur en fyrstu tvær, þeim tókst þó ekki að byggja ofan á góða byrjun og vann Þróttur þá hrinu á endanum 25-21.
HK liðið kom sterkt inn í fjórðu hrinu leiksins og vann hana á endanum með 10 stiga mun, 25-15. Staðan orðin 2-2 og því þurfti að grípa til oddahrinu. Þar reyndust Þróttarastelpur sterkari. Lokatölur 3-2 í mögnuðum leik.
Um helgina tryggði 4.flokkur kvenna sér einnig bikarmeistartitilinn í sínum aldursflokki með því að leggja Völsung að velli. Þá urðu strákarnir í 3. flokki einnig bikarmeistarar eftir sigur á Aftureldingu.
Fjarðabyggð sendir nýkrýndum bikarmeisturum Þróttar innilegar hamingjuóskir með bikarinn!