Bólusetningar gegn COVID-19 eru aftur komnar af stað hér eystra. Í dag hefst bólusetning 12-15 ára barna og fara þær fram bæði á Egilsstöðum og Eskifirði. Nánari upplýsingar má sjá á heimasíðu Heilbrigðisstofnunar Austurlands og á facebook síðu HSA.
Tilkynning frá aðgerðarstjórn á Austurlandi 11. ágúst
Þá vill aðgerðastjórn hvetja þá sem eru óbólusettir að hafa samband í gegnum bolusetning@hsa.is eða heilsuvera.is til að bóka tíma. Ljóst er að bólusetning gegn Covid-19 minnkar líkur á alvarlegum veikindum og því er mikilvægt að ná til sem flestra sem hafa ekki fengið bólusetningu.
Ekki varð fjölgun á kórónuveirusmitum á Austurlandi eftir nýliðna helgi. Þá voru nokkrir sem hafa lokið sinni einangrun og það skýrir fækkun á tölum hjá covid.is. Við þurfum þó áfram að vera á varðbergi, huga vel að persónubundnum sóttvörnum, gæta að okkur í margmenni og fara í sýnatöku ef við finnum fyrir einkennum.
Okkur hefur tekist prýðilega til fram að þessu og enn erum við í ágætum málum þrátt fyrir allt. Tiltölulega fá smit hafa greinst í fjórðungnum og enginn er alvarlega veikur. Verum varkár sem fyrr og tryggjum þannig í sameiningu áframhaldandi gott ástand og niðurstöðu.