Bólusetningar í fjórðungnum ganga vel. Stefnt er á að bólusetja um þrjú hundruð manns á morgun og um áttatíu í næstu viku. Síðan fara skipulagðar bólusetningar í sumarfrí fram í ágúst en áfram verður hægt að hafa samband á bolusetning@hsa.is
Tilkynning frá aðgerðarstjórn á Austurlandi 13. júlí
Mikil veðurblíða er á Austurlandi og spáir sólríku veðri næstu daga. Tjaldstæði eru þétt setin og töluverð aukning er í fjölda ferðamanna. Framundan eru stórar bæjarhátíðir og því viðbúið að mikill fjöldi fólks safnist saman við hátíðarhöld. Í vikunni er listahátíðin LungA á Seyðisfirði og í næstu viku eru Franskir dagar á Fáskrúðsfirði og Bræðslan á Borgarfirði Eystri. Aðgerðastjórn hvetur íbúa og gesti til að sýna varkárni og huga vel að persónubundnum sóttvörnum, handþvotti og sprittun. Það hafa komið fram ábendingar um að spritt sé ekki lengur sýnilegt við inngang í verslanir og eru rekstraraðilar því hvattir til að hafa spritt áfram í boði fyrir þá sem vilja. Í gær greindust tveir með kórónuveiruna utan sóttkvíar og voru þeir báðir bólusettir gegn veirunni. Það undirstrikar mikilvægi þess að fara í sýnatöku ef við verðum vör við einkenni, líka þeir sem eru fullbólusettir.
Njótum sumarsins og blíðunnar, við eigum það skilið.