mobile navigation trigger mobile search trigger
16.03.2021

Tilkynning frá aðgerðarstjórn á Austurlandi 17. mars

Enginn er með virkt COVID smit á Austurlandi. Bólusetning gengur vel og samkvæmt áætlun. Hægt er að skoða fjölda bólusettra á Covid.is, en þar má einnig sjá áhugaverðar tölur um hlutfall bólusettra eftir landsvæðum, aldri og fleira. Hlutfall innan og milli svæða getur verið breytilegt eftir tímabilum en markmiðið er að reyna að stýra bólusetningafjölda sem best og jafnast. Tölulegar upplýsingar bóluefni (covid.is)

Tilkynning frá aðgerðarstjórn á Austurlandi 17. mars

Aðgerðastjórn vekur athygli á að sóttvarnareglur verða meira og minna óbreyttar næstu þrjár vikur að minnsta kosti í samræmi við nýtt minnisblað sóttvarnalæknis til heilbrigðisráðherra. Fermingar og páskar eru framundan og því mikil áskorun fyrir okkur öll að láta hvergi deigan síga í sóttvörnum, halda keik áfram og fylgja í hvívetna þeim reglum sem reynst hafa okkur svo vel til þessa.

Gleðjumst yfir hækkandi sól og því frjálsræði sem við höfum til að njóta skíðamennsku til að mynda sem við fengum ekki nema að litlu leyti í fyrra, sundlauga og líkamsræktarstöðva, golfs þegar fram í sumar sækir og svo framvegis. Höldum okkar striki og munum að ekki aðeins erum við að kveða COVID í kútinn heldur óvænt hina ýmsu óværu aðra með, svo sem hefbundna inflúensu sem átti eitt sitt versta ár í manna minnum í fyrra, kvefpestir verið fáar og boðflennur eins og njálgur átt sérlega erfitt uppdráttar á tímum handþvottar og sprittnotkunar.

Höldum okkar striki í sóttvörnum og þeirri öfundsverðu stöðu sem við höfum lagt svo mikið á okkur við að ná. Áfram við.

Frétta og viðburðayfirlit