Þrjú ný smit bættust við á Reyðarfirði eftir sýnatöku gærdagsins og því hafa 16 greinst á Reyðarfirði eftir að smit komu þar upp. Alls eru 22 einstaklingar í einangrun á Austurlandi vegna smits af völdum COVID-19. Smitrakning hefur gengið vel. Í gær voru 185 í sóttkví á Austurlandi, en viðbúið er að þeim fjölgi í dag eftir því sem smitrakningu vegna þessara nýju smita vindur fram.
Tilkynning frá aðgerðarstjórn á Austurlandi 18. september
Endanleg ákvörðun um skólahald á Reyðarfirði verður tekin á morgun en unnið er að útfærslum á því í dag. Þó er ljóst að skólahald næstu viku á Reyðarfirði verður takmarkað, og á það sérstaklega við Leikskólann Lyngholt þar sem aðeins verður hægt að hafa algera lágmarksstarfsemi vegna fjölda þeirra starfsmanna sem eru í sóttkví. Nánari tilkynningar um skólastarf verða sendar út á morgun og eru foreldrar hvattir til að fylgjast með tilkynningum varðandi það.
Sýnataka verður á Reyðarfirði í dag kl. 12 og eru íbúar sem finna fyrir einkennum eða telja sig hafa verið í samskiptum við smitaðan einstakling hvattir til að mæta. Einnig verður boðið upp á sýnatöku í Múlaþingi á morgun, sunnudaginn 19. september kl. 12:30. Mikilvægt er að skrá sig á www.heilsuvera.is áður en mætt er.
Skólahald á Austurlandi hefur undanfarnar vikur verið starfrækt miðað við takmarkanir sem settar voru í upphafi skólaárs. Þær takmarkanir byggðu á þeim reglum sem þá giltu á landinu varðandi sóttvarnir í skólum. Í ljósi þeirra aðstæðna sem nú eru uppi hefur verið ákveðið að halda í það fyrirkomulag, og slaka ekki á takmörkunum þrátt fyrir tilslakanir sem orðið hafa með nýjum reglum.