Súrálsskip með nítján manna áhöfn kom til Reyðarfjarðar í gær og lagði að Mjóeyrarhöfn. Skipstjóri gerði fyrir komu skipsins grein fyrir að sjö manns í áhöfn væru veikir.
Að fenginni einkennalýsingu og öðrum faraldursfræðilegum þáttum var ákveðið að taka sýni úr allri áhöfninni, sem náðist undir kvöld í gær. Af nítján skipverjum reyndust tíu vera með Covid-19. Aðgerðastjórn og umdæmislæknir sóttvarna í samvinnu við umboðsmann útgerðarinnar og skipstjórann hafa gefið leiðbeiningar um sóttvarnaráðstafanir um borð. Læknisfræðilegt eftirlit með skipverjunum verður unnið samkvæmt fyrirliggjandi vinnureglum þar um af Covid-deild Landspítala og HSA. Sýnataka og allt annað tengt þessu hefur gengið vel og aðgerðastjórn telur ekki hættu á að smitið dreifi sér.
Hinir smituðu eru allir í einangrun um borð og aðrir í sóttkví. Hefur svo verið frá komu skipsins til hafnar.