Bólusetningar í fjórðungnum ganga vel og var nýliðin vika sú síðasta í röð stórra bólusetningarvikna á Austurlandi. Í þessari viku verða bólusettir á þriðja hundrað einstaklingar, en samtals eru nú um 73% íbúa ýmist fullbólusettir eða byrjað bólusetningu.
Næstu vikur verður haldið áfram að reyna að ná til þeirra sem fengið hafa fyrri bólusetningu en af einhverjum ástæðum ekki þá síðari. Þeir sem enn eru óbólusettir geta leitað eftir henni gegnum heilsuvera.is eða bolusetning@hsa.is. Tekið skal fram að fyrri bólusetning með Pfizer er ekki í boði fyrr en í haust. Ennfremur skal bent á að fólk getur skráð sig á biðlista eftir bólusetningu með Janssen með því að senda póst á bolusetning@hsa.is
Í kjölfar afléttinga á sóttvarnaráðstöfunum innanlands og ekki síst einmunablíðu sem fylgdi í kjölfarið hefur aukið líf færst í fjórðunginn. Það er enda í samræmi við vonir okkar og væntingar um ánægjulegt sumar sem nú ganga eftir. Aðgerðastjórn er þó enn á tánum og biðlar til íbúa að gera slíkt hið sama með því að huga að sínum persónubundnu smitvörnum. Er þar meðal annars vísað til fjölda erlendra ferðamanna sem hingað koma á sama tíma og faraldurinn geysar öflugur í löndum í kringum okkur auk þess sem ríflega tugur manns er í einangrun á landinu vegna smits. Markið virðist vissulega nærri en við erum enn ekki komin yfir línuna.
Förum varlega sem fyrr, gætum að eigin sóttvörnum og tryggjum þannig að við öll komumst að endingu í mark.