Fimm smit hafa nú greinst á Austurlandi en eitt bættist við frá því í gær. Þá hefur orðið nokkur fjölgun einstaklinga í sóttkví síðustu daga, en þeir eru nú 209 talsins. Fjölgun í sóttkví skýrist fyrst og fremst af smitum sem hafa greinst og fjölgun þeirra.
Tilkynning frá aðgerðarstjórn Almannavarnanefndar 27.mars
Borið hefur á að upplýsingar á vef Almannavarna, COVID.is, um fjölda smitaðra séu ekki í fullkomnu samræmi við tilkynningar frá Almannavarnanefnd Austurlands. Ástæðan er sú að ekki tekst í öllum tilvikum að hafa undan við skráningar fyrir landið allt og þar með inn á vefinn, COVID.is. Upplýsingar Almannavarnanefndar sem kynntar eru hér, eru hinsvegar uppfærðar jafnóðum.
Aðstoð við þá sem eru í einangrun eða sóttkví
Rauði krossinn hefur tekið að sér að vera í reglulegu sambandi við þá sem eru í einangrun eða sóttkví og veita þeim aðstoð sem þurfa, svo sem við matarinnkaup og fleira. Þetta verkefni var áður alfarið hjá HSA en er nú framkvæmt í þéttu samstarfi HSA og Rauða krossins.
Aðstoð við aldraða meðal annars
Hópur er tekinn til starfa undir stjórn félagsþjónustu á Fljótsdalshéraði sem sinnir þörfum aldraðra og þeirra sem eiga erfitt með að fara úr húsi eða þurfa aðra aðstoð vegna ástandsins. Starfssvæði hópsins er Egilsstaðir, Fljótsdalshreppur, Djúpivogur, Vopnafjörður, Seyðisfjörður og Borgarfjörður eystri. Þeir sem búa og dvelja á svæðinu og þurfa stuðning eða þjónustu eru hvattir til að nýta sér hana með því að hafa samband við félagsþjónustuna í síma 470 0700.
Sambærilegur hópur með sama markmið og hlutverk er starfandi í Fjarðabyggð. Sími þar er 470 0900.
Samkomubann
Fulltrúar aðgerðastjórnar munu áfram fylgjast með ráðstöfunum verslana meðal annars og fyrirtækja vegna samkomubanns. Er þá litið til þess sérstaklega að í hópum séu ekki fleiri en tuttugu og að tveggja metra fjarlægðarreglu sé fylgt. Svo virðist hinsvegar sem samfélagið hafi tekið þessi tilmæli og önnur af fullri alvöru og ábyrgð. Ekki er ástæða til að ætla annað en svo verði áfram