Enginn er með virkt COVID smit á Austurlandi. Aðgerðastjórn vekur athygli á að þó staðan sé góð í fjórðungnum er enn mikið um smit á höfuðborgarsvæðinu sem og erlendis. Hvorutveggja býður hættunni heim og því ástæða til að gæta að öllum sóttvarnareglum hér eftir sem hingað til. Sérstök athygli er vakin á grímunotkun í verslunum. Þó ekki sé þar um fortakslausa skyldu að ræða nema í þeim tilvikum þar sem ekki er mögulegt að tryggja tveggja metra fjarlægð, þá hvetur aðgerðastjórn til þess að grímur séu notaðar. Þannig einföldum við hlutina og gerum okkar ítrasta sem fyrr til að fyrirbyggja smit.
20.10.2020
Tilkynning frá aðgerðastjórn á Austurlandi 20. október
Á næstu dögum hefst vetrarfrí í skólum, frí sem fjölskyldur nota gjarnan til ferðalaga til höfuðborgarinnar eða annarra landshluta. Slíkt kærkomið frí hittir samfélag okkar nú á sérlega viðkvæmum tíma. Því beinir aðgerðastjórn máli sínu sérstaklega til foreldra og forráðamanna og hvetur fjölskyldur til að verja vetrarfríinu heima á Austurlandi og blanda saman inniveru og útivist til hvers konar leikja og virkrar samveru. Aðgerðastjórn á um þetta atriði samvinnu við fjölmenningarlegt skólasamfélagið á Austurlandi og munu skólastjórnendur því senda foreldrum og forráðamönnum barna tilmæli sömu tegundar í gegnum mentor og á nokkrum tungumálum.
Gerum þetta áfram saman.