Tveir eru nú smitaðir á Austurlandi, báðir með svokallað landamærasmit. Þeir greindust við sýnatöku í Flugstöð Leifs Eiríkssonar við komu til landsins og hafa síðan verið í einangrun á heimili sínu á Austurlandi. Vel er fylgst með líðan þeirra og þörfum af hálfu Covid-deildar Landspítala og Heilbrigðisstofnunar Austurlands. (HSA). Enginn er í sóttkví vegna þessara smita og enginn grunur um önnur smit vegna þeirra. Einangrun varir meðan veikindin vara, en með öllum fyrirvörum má gera ráð fyrir að um hálfan mánuð sé að ræða í einangrun.
Tilkynning frá aðgerðastjórn á Austurlandi 30. október
Á vefnum covid.is er þriðji einstaklingurinn skráður smitaður á Austurlandi. Sá er með lögheimili í fjórðungnum en í einangrun í öðrum landshluta. Því eru tveir í einangrun á Austurlandi vegna smits en ekki þrír. Fjöldinn verður fljótlega leiðréttur til samræmis á vefnum covid.is.
Aðgerðastjórn vekur athygli á hertum sóttvarnareglum sem kynntar voru á upplýsingafundi ríkisstjórnarinnar fyrr í dag. Lögð er áhersla sem fyrr á að takmarka samskipti eins og hægt er og eðlilegt, vera ekki fleiri en tíu saman á hverjum tíma, halda tveggja metra reglu, nota grímu í verslunum og tryggja handþvott og sprittun.
Helstu breytingar sem kynntar voru snúa að skólastarfi, íþróttaiðkun, sundlaugum og sviðslistum, krám og veitingastöðum. Þá er athygli foreldra og forráðamanna sérstaklega vakin á grímunotkun og tveggja metra reglu fyrir þá sem fæddir eru 2014 og fyrr.
Reglugerð um skólastarf er væntanleg um helgina og eru foreldrar og forráðamenn beðnir um að fylgjast með tilkynningum sveitarfélaganna á heimasíðum og fésbókarsíðum um fyrirkomulag skólastarfs frá og með mánudeginum.
Flestar þessara reglna er taka gildi um miðnætti eru okkur ekki framandi þó vissulega sé hert á þeim á ákveðnum sviðum. Mikilvægt er að við höldum okkar striki og höldum áfram að gera það sem við höfum gert svo vel fram að þessu, - að gera þetta saman.
Upplýsingar um hinar nýju reglur má finna hér.