Alcoa Fjarðaál veitti í síðustu viku skipuleggjendum tónlistarhátíðarinnar Eistnaflugs í Neskaupstað hæsta einstaka styrkinn við árlega vorúthlutun Samfélagssjóðs Alcoa Fjarðaáls. Alls var úthlutað átta milljónum króna til þrjátíu og tveggja verkefna á Austurlandi og rann ein milljón króna til Eistnaflugs.
15.06.2015
Tónlistarhátíðin Eistnaflug hlaut hæsta styrkinn úr Samfélagssjóði Aloca Fjarðaáls
Fjarðaál veitir samfélagsstyrki tvisvar á ári en með styrkjunum leitast fyrirtækið við að styðja við bakið á margvíslegum verkefnum sem gagnast íbúum svæðisins. Tónlistarhátíðin Eistnaflug í Neskaupstað hefur á síðustu árum fest sig í sessi sem ein helsta tónlistarhátíð landsins og vex umfang hennar ár frá ári. Nú er svo komið að hún flyst úr Egilsbúð yfir í íþróttahúsið í Neskaupstað. Eistnaflug er helsta innlenda uppskeruhátíð rokkara og hefur hróður hennar borist víða. Hátíðin hlaut t.a.m. Menningarverðlaun Austurlands árið 2012 og var tilnefnd til Eyrarrósarinnar 2013.
Nánari upplýsingar um styrkúthlutanir má sjá á heimasíðu Alcoa Fjarðaáls.