Tónskóli Neskaupstaðar fagnaði 60 ára starfsafmæli þann 1. október sl. Egill Jónsson, tónskólastjóri, rifjar í tilefni af því upp áhugaverða sögu skólans í skemmtilegu viðtali við Austurgluggann.
Tónskóli í sérflokki
Tónlistarfélag Neskaupstaðar hafði forgöngu um stofnun skólans á sínum tíma og sá jafnframt um rekstur hans fyrstu átta árin. Formlegt skólahald lág síðan í láginni um nokkurra ára skeið eða þar til Tónskóli Neskaupstaðar tók til starfa í núverandi mynd. Gerðist það fyrir atbeina bæjarstjórnar, sem samþykkti að taka alfarið að sér rekstur skólans.
Egill hefur starfað við skólann nær óslitið frá árinu 1986, þar af sem skólastjóri frá árinu 2010. Auk þess var hann nemandi á árunum 1963 til 1973 og kenndi jafnframt einn vetur við skólann, áður en hann flutti sig tímabundið um set vegna framhaldsmenntunar.
Egill hefur því góða yfirsýn yfir skólastarfið og þýðingu þess fyrir samfélagið, sem nær að hans sögn langt út fyrir ramma sjálfrar kennslunnar. Blús-, rokk- og jazzklúbburinn á Nesi, BRJÁN, varð sem dæmi til á kaffistofu skólans og á helstu mannamótum eru tónlistaratriði með nemendum jafnan eftirsótt. Því megi með margvíslegu móti sjá öflugu starfi skólans stað í Norðfirði.
Skólastarfið hefur vaxið og dafnað á 60 árum. Fyrsta skólaárið voru nemendur 30 og luku 20 þeirra prófi á annað hvort píanó eða orgel. Nemendafjöldinn er nú um 100 og fer kennsla fram á yfir 20 hljóðfæri. Þá starfar lúðrasveit við skólann undir stjórn Hildar Þórðardóttur, en auk hennar eru kennarar við skólann Jón Hilmar Kárason, Eyrún Eggertsdóttir og Þorlákur Ægir Ágústsson.
Að sögn Egils veitir stöðugleiki í kennaraliði skólanum ákveðna sérstöðu, auk þess sem fyrrverandi nemendur komi gjarnan aftur til að kenna. Af núverandi kennurum hafi t.a.m. allir verið nemendur við skólann, að Eyrúnu undanskilinni.
Þá má einnig heita ljóst, að starfsemin hefur ekki síður notið góðs af úrvalsstjórnendum. Fyrstur af þeim fimm skólastjórum, sem starfað hafa við skólann, var Jón Ásgeirsson, tónskáld, en á meðal þekktustu tónverka hans eru vafalaust lögin við Maístjörnuna eftir Halldór Kiljan Laxness og Vísur Vatnsenda-Rósu.
Milada Janderova, tékkneski píanóleikarinn, var annar í röðinni og af honum tók síðan við Haraldur Guðmundsson, Norðfirðingur og áhrifamaður í tónlsitarlífi staðarins. Haraldur hélt svo um stjórntaumana allt til ársins 1981, er Ágúst Ármann Þorláksson, faðir Þorlákar Ægis, tók við starfinu og gegndi því fram til ársins 2010.
(Heimild: Austurglugginn, 38. tbl. 15. árg.)