Fjarðabyggð kynnir um þessar mundir drög að umhverfis- og loftlagsstefnu sveitarfélagsins til ársins 2040 og óskar nú eftir aðkomu íbúa og hagsmunaaðila á stefnunni.
Umhverfis- og loftlagsstefna Fjarðabyggðar - Aðkoma íbúa
Umhverfis- og loftlagsstefnu Fjarðabyggðar er ætlað að varpa ljósi á núverandi stöðu í umhverfismálum, setja fram markmið í anda Heimsmarkmiða Sameinuðu Þjóðanna og móta leiðir til að ná þeim markmiðum.
Í umhverfisstefnu Fjarðabyggðar eru heimsmarkmið Sameinuðu þjóðanna um sjálfbæra þróun höfð að leiðarljósi. Allar ákvarðanatökur og framkvæmdir, rekstur og innkaup sem önnur starfsemi sveitarfélagsins mun taka mið af heimsmarkmiðunum og sjálfbærni.
Með sjálfbæra þróun sem markmið er verið að leggja áherslu á að virða náttúrufar og varðveislu umhverfis eins og kostur er. Ekki verði dregið úr möguleikum komandi kynslóðar til að mæta þörfum sínum. Fjarðabyggð er kraftmikið sveitarfélag þar sem stóriðnaður vegur þungt. Landnýting er stór þáttur í uppbyggingu innviða og með umhverfisstefnunni verður þeim þörfum mætt er varða atvinnuuppbyggingu út frá sjálfbærni og virðingu við náttúru. Umhverfisstefnan er liður í að skipuleggja nýtingu náttúruauðlinda í Fjarðabyggð og hvernig megi nýta á sem sjálfbærastan hátt vistkerfi náttúruauðlindanna. Aðalskipulag Fjarðabyggðar leikur veigamikið hlutverk en jafnframt er mikilvægt að fyrirtæki og einstaklingar tileinki sér sjálfbæra nálgun í sínum störfum og daglega líf.
Drög að stefnunni, sem umhverfis- og skipulagssvið Fjarðabyggðar hefur unnið er hægt að finna hér:Umhverfis- og loftslagsstefna Fjarðabyggðar - Drög
Á Youtubesíðu Fjarðabyggðar má finna myndband þar sem stefnan og meginmarkmið hennar eru kynnt. Myndbandið má finna með því að smella hér.
Glærurnar sem sýndar eru í myndbandinu má svo finna hér:Glærupakki með kynningu - Umhverfis- og loftlagsstefna.
Það er von Fjarðabyggðar að íbúar, fyrirtæki og hagsmunaaðilar í Fjarðabyggð bregðist vel við og sendi inn athugasemdir.
Senda skal inn ábendingar og tillögur í tölvupósti á fjardabyggd@fjardabyggd.is fyrir 18. janúar 2021 merkt "Umhverfis- og loftlagsstefna".