Á fundi bæjarstjórnar 15. desember var lögð fram og samþykkt samhljóða, eftirfarandi umsögn bæjarins um frumvarp til laga um skipulag haf- og strandsvæða.
Umsögn Fjarðabyggðar um frumvarp til laga um skipulag haf- og strandsvæða
„Skipulagslög nr. 123/2010 taka eingöngu til skipulagsáætlana innan lögsagnarumdæma sveitarfélaga, sem afmarkast af ytri mörkum netlaga. Bæjarstjórn Fjarðabyggðar tekur undir þau sjónarmið, að brýnt sé að skipulagsskylda haf- og strandsvæða utan netlaga verði einnig bundin í lög, ekki hvað síst með hliðsjón af vaxandi umsvifum á strandsvæðum, s.s. vegna fiskeldis og efnistöku.
Jafnframt undirstrikar bæjarstjórn mikilvægi þess að skipulagslöggjöf gangi ekki á hefðbundið forræði sveitarfélaga í skipulagsmálum. Skipulagsmál eru eitt mikilvægasta stjórntæki hverjar sveitarstjórnar. Aðalskipulag endurspeglar í samspili við deiliskipulag, vilja samfélagsins og framtíðarsýn gagnvart landnotkun og framtíðarþróun. Forræði sveitarfélaga tryggir jafnframt að stjórnvaldsfyrirmæli skipulagsáætlana byggi á lýðræðislegum grunni sveitarstjórna.
Strandsvæði eru ásamt innfjörðum og flóum, hluti af skipulagsáætlunum sveitarfélaga með bæði beinum og óbeinum hætti. Séu þessi svæði slitin úr samhengi við skipulagsáætlanir sveitarfélaga, gæti það haft í för með sér vandmeðfarið óhagræði og árekstra ólíkra hagsmuna, með þeim afleiðingum að þau grundvallarmarkmið skipulagslöggjöfar verða fyrir borð borin, sem stuðla að nýtingu og verndun auðlinda á sjálfbærum grunni í þágu efnahagslegrar uppbyggingar og félagslegrar velferðar.
Á meðal annarra alvarlegra annmarka má nefna að strandsvæðaskipulag afmarkast 30m landmegin við meðalstórstraumsflóð, sem þýðir að skipulagsáætlanir haf- og strandsvæða myndu skarast við aðalskipulagsáætlanir sveitarfélaga. Þá er ráðherraskipuðum svæðisráðum falin ábyrgð á skipulagsgerðinni og ber þeim einungis að taka tillit til skipulagsáætlana þeirra sveitarfélaga sem eiga í hlut.
Þá hlýtur að orka tvímælis, að í stað þess að byggja á núverandi lagagrunni skipulagsmála, mæla drögin fyrir nýju fyrirkomulagi, sem svo er ætlað að starfa samhliða því sem fyrir er. Standi vilji ríkisvaldsins til þess að efla skipulagsgerð, væri mun nærtækara, að fella skipulag haf- og strandsvæða að núverandi fyrirkomulagi skipulagsmála og tryggja fjármögnun þess með skilgreindum tekjustofnum.
Síðast en ekki síst ganga tillögur frumvarpsdraganna gegn þeirri meginreglu að efla skuli staðbundið vald og ákvarðanatöku með tilliti til almannahagsmuna og skynsamrar meðferðar opinberra fjármuna. Þessi nándarregla er ein helsta ástæða þess að viðamikil verkefni á borð við grunnskólarekstur hafa verið færð frá ríki til sveitarfélaga. Enn sér ekki fyrir endann á þeirri þróun og sætir því furðu að nú skuli kveða við allt annan tón í skipulagsmálum, þrátt fyrir þá staðreynd að málaflokkurinn er á meðal mikilvægustu kjarnaverkefna sveitarfélaga.
Bæjarstjórn Fjarðabyggðar skorar því á Umhverfis- og auðlindaráðuneyti að endurskoða umrædd frumvarpsdrög m.t.t. þess að sveitarfélög fari með skipulagsmál á haf- og strandsvæðum með sambærilegum hætti og lagt er til í stefnumörkun Sambands íslenskra sveitarfélaga 2014 til 2018, lið 3.4.8: Sambandið gætir hagsmuna sveitarfélaga við mótun lagafrumvarps um skipulag haf- og strandsvæða. Í þeirri vinnu verði lögð áhersla á að skipulag strandsvæða, allt að einni sjómílu út frá grunnlínu landhelginnar, verði á forræði sveitarfélaga. Einnig verði lögð áhersla á að fram fari nauðsynlegar grunnrannsóknir á strandsvæðum þar sem álag vegna nýtingar er mikið, til að auðvelda gerð skipulags- og nýtingaráætlana.