Í gær var ritað undir samning milli velferðarráðuneytsins og Fjarðabyggðar um móttöku flóttamanna frá Írak sem væntanlegir eru til Fjarðabyggðar á næstu dögum.
Undirritun samnings um móttöku flóttafólks
Það voru þeir Páll Björgvin Guðmundsson, bæjarstjóri Fjarðabyggðar og Ásmundur Einar Daðason, félags- og jafnréttismálaráðherra sem undirrituðu samningin. Undirbúningur að móttöku fólksins hefur staðið yfir um nokkurt skeið í samvinnu við Flóttamannastofnun Sameinuðu þjóðanna (UNCHR) og fór sendinefnd til Jórdaníu í nóvember síðstliðnum, meðal annars til að veita fólkinu fræðslu um Ísland, íslenskt samfélag og réttindi og skyldur. Þetta er í annað sinn sem Fjarðabyggð tekur á móti flóttafólki en árið 1999 tók sveitarfélagið á móti hópi flóttafólks frá Kosovo.
Sveitarfélagið hefur undirbúið móttöku fólksins í nánu samstarfi við velferðarráðuneytið og Rauða krossinn á Íslandi. Samningurinn sem undirritaður var í dag lýtur að móttöku, aðstoð og stuðningi við fjölskyldurnar fjórar á næstu tveimur árum. Alls eru þetta nítján einstaklingar, þar af 10 börn en tvö þeirra eru eldri en 18 ára. Samningurinn byggist á viðmiðunarreglum flóttmannanefndar þar sem staða flóttafólks og réttindi þeirra eru skilgreind, fjallað um um inntak aðstoðar við það fyrst eftir komuna til landsins og um kostnaðarskiptinun vegna þess milli ríkis og viðkomandi sveitarfélaga. Í grófum dráttum snúa verkefnin að því að tryggja fólki húsnæði, félagslega ráðgjöf, menntun og fræðslu, heilbrigðisþjónustu, aðstoð við atvinnuleit og fjárhagsaðstoð til framfærslu. Rauði krossinn kemur að móttöku fólksins þar sem hann útvegar fólkinu nauðsynlegt innbú á heimili þess og hefur umsjón með stuðningsfjölskyldum sem ætlað er að liðsinna flóttafólkinu við aðlögun að íslensku samfélagi