Ungmennafélagið Hrafnkell Freysgoði á Breiðdalsvík sendi í fyrsta sinn keppendur á Íslandsmeistaramót barna og unglinga í karate, sem fóru fram í Kópavogi helgina 15. - 16. apríl. Karate er tiltölulega ný íþróttagrein hja Hrafnkeli Freysgoða, karatekennsla hófst á Breiðdalsvík í september 2021 undir leiðsögn Maríu Helgu Guðmundsdóttur, fyrrverandi landsliðsþjálfara og landsliðskonu í greininni.
Ungmennafélagið Hrafnkell Freysgoði á Breiðdalsvík sendi í fyrsta sinn keppendur á Íslandsmeistaramót barna og unglinga í karate
Reyndustu iðkendur Hrafnkels hafa því æft í aðeins eitt og hálft ár, en þrátt fyrir ungan aldur í íþróttinni stóðu þau sig öll með prýði á mótinu.
Alls tóku tíu krakkar þátt í mótunum:
- Aðalsteinn Bjartur Þrastarson, 8 ára, frá Stöðvarfirði
- Angela Ósk Ómarsdóttir, 10 ára, frá Stöðvarfirði
- Bergþóra Líf Heiðdísardóttir, 13 ára, frá Breiðdalsvík
- Birgir Hrafn Valdimarsson, 11 ára, frá Breiðdalsvík
- Bríet Svala Sölvadóttir, 10 ára, frá Breiðdalsvík
- Börkur Diljan Kristinsson, 10 ára, frá Breiðdalsvík
- Hákon Haukur Heiðar Heiðuson, 9 ára, frá Breiðdalsvík
- Heiðbjört Helga Árnadóttir, 10 ára, frá Breiðdalsvík
- Hóseas Haukur Ingi Heiðuson, 12 ára, frá Breiðdalsvík
- Konstantin Pomuran, 12 ára, frá Stöðvarfirði
Til gamans má geta að þetta er u.þ.b. fjórði hver nemandi í Breiðdals- og Stöðvarfjarðarskóla, sem sýnir hvað karatestarfið nýtur mikilla vinsælda í Breiðdal og Stöðvarfirði um þessar mundir.
Bestum árangri náði Hákon Haukur Heiðar, sem komst alla leið í undanúrslit í flokki 9 ára pilta og hafnaði að lokum í 5. sæti. Þá höfnuðu Bríet og Angela saman í 7.-8. sæti í flokki 10 ára stúlkna. Þótt aðrir iðkendur kæmust ekki jafn langt stimpluðu þau sig öll inn af krafti og stóðu vel í erfiðum andstæðingum. Þau koma heim reynslunni ríkari eftir eftir mótin og æfingar með jafnöldrum í Reykjavík.
Mikil gleði var með það á mótinu að sjá nýtt félag mæta til leiks og að í fyrsta skipti skyldu koma keppendur frá Austurlandi. Utan höfuðborgarsvæðisins er aðeins eitt annað karatefélag virkt innan Karatesambands Íslands, en það er Karatefélag Akureyrar.
Keppendur Hrafnkels vöktu verðskuldaða athygli fyrir góða framkomu, jákvæðni og leikgleði. Þá þótti til fyrirmyndar hvað félagið sendi marga keppendur og að foreldrar skyldu taka að sér hlutverk starfsmanna á mótinu.
Á mótunum var keppt í kata, sem er sú keppnisgrein karate þar sem framkvæmdar eru tækniæfingar. Kata er oft líkt við bardaga við ímyndaðan andstæðing og gengur út á að sýna styrk, snerpu, ákveðni og tæknilega færni í fyrirfram ákveðnum æfingum, sem sumar eiga sér aldalanga sögu í bardagalistum Austur-Asíu. Keppt er bæði í einstaklingskata og hópkata; í einstaklingskata leikur einn keppandi listir sínar í einu, en í hópkata gera þrír saman í einu og reyna að vera samtaka í framkvæmdinni.
Sumarnámskeið verða haldin í karate hjá Hrafnkeli Freysgoða á Breiðdalsvík og öll börn velkomin að koma og prufa íþróttina. Frekari upplýsingar um sumarnámskeiðin eru veittar hjá Hrafnkeli Freysgoða eða á netfangið hfreysgodi@gmail.com