Nemendur í safnafræði og umhverfisskipulagi hafa verið í vettvangsferð um Eskifjörð vegna hugmynda- og skipulagsvinnu fyrir nýtt safnasvæði. Hér má sjá hópinn við Randulffssjóhús í gærdag.
Uppbygging nýs safnasvæðis á Eskifirði
Í tengslum við komu hópsins til Fjarðabyggðar var haldinn íbúafundur sl. föstudag í Tónlistarmiðstöð Austurlands, þar sem þetta áhugaverða safnaverkefni var kynnt ásamt öðru skipulagsverkefni á Hlíðarendasvæðinu.
Á fundinum kom m.a. fram að nemendunum í safnafræði, sem voru staddir hér ásamt sigurjóni B. Hafsteinssyni prófessor, verður skipt upp í nokkra hópa sem vinna munu hver um sig tillögur að staðsetningum og tengingum innan nýja safnasvæðisins, safnasýningum, kynningar- og markaðsmálum og stofn- og rekstrarkostnaðarmálum vegna nýja safnasvæðisins.
Samhliða þessari vinnu mun svo útskriftarnemi í umhverfisskipulagi við Landbúnaðarháskóla Ísland vinna skipulagstillögur fyrir Hlíðarendasvæðið. Sú tillögugerð verður unnin út frá auknum lífsgæðum íbúa og staðarvitund og verður m.a. stuðst við svonefnda landslagsgreiningu, sem felur í sér hlutlægt mat á því hvað sé einkennandi og íbúum mikilvægt í umhverfi Eskifjarðar.
Einnig kynnti Daniel Byström, iðnhönnuður og verkefnisstjóri, Áfangastaðinn Austurland, uppbyggingu verkefnisins og mögulegar tengingar við hugmynda- og skipulagsvinnu vegna nýja safnasvæðisins á Eskifirði.
Þá var einnig fjallað um aðdragandann að safnaverkefninu, sem á upphaf sitt í því að Sjóminjasafn Austurlands eignaðist árið 2011 gamla Sæbergshúsið á Eskifirði. Bent var m.a. á mikilvægi þess að sem flestir hagaðilar kæmu að skipulagsvinnunni, með bestu mögulegu nýtingu svæðisins að leiðarljósi.
Að kynningu lokinni voru umræður um verkefnið. Var m.a. bent á staðbundnar sögutengingar, s.s., „Stál og hníf“, þekkt lag eftir Bubba Morthens sem varð til í verbúð á Eskifirði, háhyrninginn Keikó og fleiri áhugaverðar „sögur“ sem segja mætti. Einnig um göngustíga, bekki, áningarstaði o.fl.