Uppskeruhátíð skapandi sumarstarfa í Fjarðabyggð hófst í gær, fimmtudag, og stendur yfir fram á laugardag.
Uppskeruhátíð skapandi sumarstarfa í Fjarðabyggð í Valhöll á Eskifirði
05.08.2021 - 07.08.2021
Listahópurinn BRaust hefur svo sannarlega lagt á mið sköpunar í sumar en hann hefur verið sýnilegur í sveitarfélaginu og unnið að ýmsum verkefnum. Meðal annars hafa listamenn hópsins gert teiknimyndir um íslensku skrímslin, málverk, raftónlist, skúlptúra, kvikmyndatökur og tónistarmyndband. Þá hafa þau einnig staðið fyrir ýmsum uppákomum s.s. gjörning í V5 Bílskúrspartý, tóku þátt í hátíðarhöldum á 17. júní á Eskifirði og tóku þátt í ýmsum viðburðum á LungA. Hópinn skipa þau Bryndís Tinna, Daníel Örn, Helena Lind, Jónatan Leó og María Rós.
Á setningu uppskeruhátíðarinnar var góð mæting og var rætt um mikilvægi listsköpunar í víðum skilningi. Til máls tóku Jóhann Ágúst Jóhannsson - Forstöðumaður Menningarstofu Fjarðabyggðar, Viktoría Blöndal - verkefnastýra skapandi sumarstarfa og Jón Björn Hákonarson - bæjarstjóri Fjarðabyggðar. Við lok setningar uppskeruhátíðarinnar afhenti Jón Björn listamönnum BRaust reynitré að gjöf.
Við óskum listamönnunum í BRaust til hamingju með opnun uppskeruhátíðarinnar og hvetjum fólk til að leggja leið sína í Valhöll á Eskifirði. Sýningin verður opin í dag, föstudag, á milli kl. 15 og 17 og á laugardaginn frá kl. 12 til 16.