Um helgina hefja Þróttarliðin í blaki keppni í úrslitakeppninni.
Úrslitakeppnin í blaki hefst um helgina
Bæði kvenna- og karlaliðið voru í 3. sæti í deildarkeppninni í vetur og mæta því liðum úr 2. sæti í undanúrslitum. Kvennaliðið mætir Íslandsmeisturum Aftureldingar. Afturelding endaði með 47 stig í deildarkeppni en Þróttur 35. Fyrsti leikur rimmunnar verður í Íþróttahúsinu að Varmá í Mosfellsbæ sunnudaginn 26. mars kl. 13:00. Tveimur dögum síðar mætast liðin í Íþróttahúsinu Neskaupstað og hefst leikurinn kl. 19:00. Ef til oddaleiks kemur verður hann í Mosfellsbænum fimmtudaginn 30. mars kl. 19:00.
Karlaliðið mætir einnig ríkjandi Íslandsmeisturum, HK. Litlu munaði á liðunum í deildarkeppninni í vetur. HK var með 41 stig en Þróttur með 36. Fyrsti leikur liðanna verður laugardaginn 25. mars í Fagralundi í Kópavogi og hefst kl. 14:00. Leikur númer tvö verður í Íþróttahúsinu Neskaupstað mánudaginn 27. mars kl. 19:00 og oddaleikur tveimur dögum síðar í Kópavoginum ef til hans kemur. Hefst hann þá kl. 19:00.
Kvennalið Þróttar er einnig komið í undanúrslit Kjörísbikarsins þar sem það mætir Aftureldingu enn eina ferðina. Leikurinn verður föstudaginn 7. apríl og fer fram í Laugardalshöllinni kl. 14:00. Ef Þróttur kemst í úrslitaleikinn verður hann tveimur dögum síðar á sama stað.