Stjórn Menningarstofu Fjarðabyggðar úthlutaði styrkjum til ýmissa verkefna á fundi stjórnar menningarstofu sem haldin var 27. febrúar. Líkt og síðustu ár barst fjöldi umsókna fyrir metnaðarfull verkefni á sviði menningar í Fjarðabyggð. Veittir voru m.a. styrkir til götuleikshúss og sæskrímsla, tónleikahalds, ljósmyndasýninga, upptöku á nýjum plötum, súpuhittings, brúðuleikhússýningar, sinfóníutónleika og ljóðabókaútgáfu.
Úthlutun menningarstyrkja 2024
Ár hvert veitir Fjarðabyggð framlögum til fastra og verkefnabundinna menningarverkefna en á árinu 2024 nema þau 41 milljón kr. Þar af veitir Menningarstofa um 14 milljónum kr. til ýmissa menningartengdra verkefna og um 5 milljónir kr. renna til félagasamtaka í formi til styrkja til greiðslu fasteignaskatt. Alls nema útgjöld Fjarðabyggðar til menningarmála tæplega 271 milljónum kr. á árinu 2024.
Alls nemur styrkúthlutun 2 milljónum kr. en þau þrettán verkefni sem hlutu verkefnastyrki stjórnar Menningarstofu árið 2024 eru:
Tónleikar Sinfóníuhljómsveitar Austurlands þar sem frumflutt verður m.a. verkið forStargazer eftir Dr. Charles Ross. Charles hefur verið virkur þátttakandi í tónlistarlífinu hér á Austurlandi um árabil og víða um heim raunar. Á tónleikunum verða líka flutt sjöunda sinfónía Beethovens ásamt verkinu Danse des spectres et des fairies úr balletinum Don Juan eftir Christoph Willibald Gluck. - 300.000 kr.
Hringleikur – sirkuslistafélag mætir í Fjarðabyggð með götuleikhússýninguna Sæskrímslin og opnar Innsævi, vinnur með skapandi sumarstörfum og heldur námskeið. - 300.000 kr.
DDT pönkviðburðir. Austur í Rassgati - OIC. Tónleikaviðburður í Neskaupstað næsta haust. Hátíðin er orðin fastur viðburður í tónlistarlífinu í Fjarðabyggð en þar er boðið upp á blanda af pönki, rokki og poppi en er henni ætlað að vekja athygli á austfirsku tónlistarlífi ásamt því að bjóða upp á stærri nöfn í íslensku tónlistarlífi. 200.000 kr.
BRJÁN hlýtur styrk til að standa fyrir tónleikaröð í nýuppbyggðu húsnæði, í Tónspil. Flytjendur verða bæði af svæðinu og lengra að komnir. 200.000 kr.
Fiskisúpa-Ljósmyndasósa er farandsverkefni þar sem íbúum á Austurlandi er boðið að koma og upplifa ljósmyndir og myndlist auk þess að hitta listafólkið og borða fiskisúpu í góðri samveru. 175.000 kr.
Tónlistarkonan María Bóel Guðmundsdóttir hlýtur styrk til að taka upp sína fyrstu EP-Plötu. 150.000 kr.
Dagbjört Elva Sigurðardóttir heldur ljósmyndasýningu byggða á bókinni Milli fjallanna sem kom út árið 2022. Sýningin verður sett upp í Gallerí Þórsmörk en myndirnar eru tengdar sveitinni í Norðfirði nánar til tekið Skorrastað II. 150.000 kr.
Berta Dröfn Ómarsdóttir sópran og Svanur Vilbergsson gítarleikari hljóta styrk til að taka upp hljómplötu í Studio Siló á klassískann gítar. Upptökur verða í höndum Vinny Wood. 150.000 kr.
Tinna Þorvalds Önnudóttir, mezzosópran söngkona, og Alda Rut Vestmann, píanisti, fá styrk til að flytja tónverk eftir evrópsk kvenkyns tónskáld endurreisnar- og barokktímans, svo sem Francesca Caccini, Barbara Strozzi, Lucrezia Orsina Vizzana og Francesca Campana. Tónleikarnir fara fram í Stöðvarfjarðarkirkju en einnig mun tvíeikið ferðast um með tónleikana í dvalar- og hjúkrunarheimili Fjarðabyggð. 100.000 kr.
Jón Knútur Ásmundsson, ljóðskáld og tónlistarmaður, hlýtur styrk til að standa að útgáfu nýrrar ljóðabókar sem kemur til með að heita Slög. 100.000 kr.
Útsæðið – bæjarhátíð hlýtur styrk til að standa að kvikmyndasýning á bæjarhátíðinni Útsæði á gömlu efni frá Eskifirði. 75.000 kr.
Teresa Maria Rivarola fær styrk vegna verkefnisins "Spiderweb and heritage". Vefnaður og saga auk brúðusýningar fyrir börn. 50.000 kr.
Sóley Þrastardóttir hlýtur styrk til að standa að tónleikum sínum og Kristjáns Karls Bragasonar, píanóleikara. Tónleikarnir nefnast Fantasía og verða haldnir í Tónlistarmiðstöð Austurlands þann 17. mars. Á dagskrá eru valin verk fyrir þverflautu og píanó eftir frönsk tónskáld frá 19. og 20. öld. 50.000 kr.