Þann 23. febrúar sl. var úthlutað styrkjum úr minningarsjóð Ágústar Ármanns. Við úthlutun úr sjóðnum er lögð áhersla á að einstaklingar og stofnanir innan Fjarðabyggðar geti sótt um fyrir verkefni sem stuðla að aukinni tónlistarmenntun.
Úthlutun úr Minningarsjóði Ágústar Ármanns
Óskað var eftir umsóknum í minningarsjóð Ágústar Ármanns á dögunum. Þetta er í fjórða sinn sem úthlutað er úr minningarsjóðnum. Sjóðurinn var stofnaður árið 2015 og fer úthlutun fram á fæðingardegi Ágústar Ármanns 23.febrúar ár hvert. Áhersla er lögð á að einstaklingar og stofnanir innan Fjarðabyggðar geti sótt um í sjóðinn fyrir verkefni sem stuðla að aukinni tónlistarmenntun.
Í ár hlutu þrír einstaklingar styrk:
Þorvaldur Örn Davíðsson er fæddur og uppalinn Eskfirðingur og stundaði tónlistarnám fyrst á Eskifirði og svo hjá Ágústi Ármann í Neskaupstað þar sem hann lauk miðprófi í píanóleik. Hann færði sig síðan norður á Akureyri þar sem hann útskrifaðist með framhaldspróf í píanóleik og lauk BA prófi í tónsmíðum. Þorvaldur fær styrk vegna kantórsnáms við Tónskóla Þjóðkirkjunnar en þar er hann á lokaári.
Júlíus Óli Jacobsen er uppalinn Norðfirðingur og hefur stundað nám í 8 ár við Tónskóla Neskaupstaðar í píanóleik. Júlíus fær styrk til að hefja nám við Menntaskólann í tónlist. Þar stefnir hann á að fara í Rythmíska tónlistarbraut með píanó sem aðalhljóðfæri.
María Bóel Guðmundsdóttir er píanónemandi uppalinn í Neskaupstað. Hún hefur stundað nám við Tónskóla Neskaupstaðar í tæp 12 ár og fær styrk til að fara í nám í Tónlistarskóla FÍH. María ætlar að stunda nám við söngdeild skólans.
Við óskum þeim öllu hamingju með styrkinn og óskum þeim góðs gengis í sínu námi
Í stjórn Minningarsjóðs Ágústar Ármanns sitja: Þorlákur Æ. Ágústsson, Egill Jónsson, María Hjálmarsdóttir