Mikið hefur verið að gera það sem af er ári hjá slökkviliði Fjarðabyggðar. Á fyrstu sex mánuðum ársins fékk slökkviliði 460 boðanir samanborið við 391 árið á undan. Flest útköll eru tengd sjúkraflutningum en auk þess að sinna sjúkraflutningum í Fjarðabyggð, sinnir slökkviliði sjúkraflutningum fyrir Djúpavog.
Útköllum slökkviliðs fjölgar
Af þessum 460 boðunum voru 44 þeirra á slökkvibíla liðsins, það eru þá boð vegna bruna, bílslysa og eða gruns um eld.
Verkefni slökkviliðsins eru fjölbreytt og þar má nefna samstarf milli viðbragðsaðila. Í júní kom útkall á björgunarskipið Hafbjörgu frá Norðfirði, til að sækja slasaðan sjómann um borð í fiskibát. Bráðatæknir frá slökkviliðinu var með í för og saman sinntu þeir manninum þar til þyrla Landhelgisgæslunnar kom og sótti hann og flutti á sjúkrahús í Reykjavík.
Slökkviliði fékk afhentan nýjan bíl á vormánuðum. Í síðasta mánuði fékk slökkviliði svo heimsókn frá framleiðandan bílsins og fengu slökkviliðsmenn kennslu og þjálfun á bílinn og þeim tækjabúnaði sem fylgir honum. Bifreiðin er búin einu öflugasta kerfi sem völ er á, svokölluðu One-Seven 5500 slökkvikerfi, sem sjöfaldar slökkvimátt þess vatns sem notað er um leið og mengun við slökkvistörf minnkar. Auk þess hefur bifreiðin Euro 6 vottun og er því mun umhverfisvænni en sú bifreið sem hún mun leysa af hólmi. Auk hefðbundinnar hand-hitamyndavélar verður bifreiðin búin hitamyndavél, sem veitir slökkviliðinu mikla möguleika til þess að bæði leita að fólki við bryggjur og finna heit rými t.d. við eld í skipum og byggingum.