mobile navigation trigger mobile search trigger
07.12.2015

Varað við fárviðri

Verulegur viðbúnaður er vegna fárviðrisins sem gengur yfir landið í dag. Fjallvegum verður lokað á Austurlandi frá kl. 16:00 og fram til morguns. Fólk er hvatt til að huga vel að öllu lauslegu í kringum hús eins og ruslafötum og að hreinsa frá niðurföllum, þar sem töluverð slydda eða úrkoma er í spákortunum. Eigendur smábáta eru einnig beðnir um að huga að bátum sínum.

Varað við fárviðri
(Ljósm. DV)

Aðgerðastjórn almannavarna á Fjörðunum hvetur fólk eindregið til að halda sig heima eftir klukkan 17 í dag og virða lokanir á vegum. Varað er við því að vera á ferðinni, nema í ýtrustu neyð. Þá ákvað aðgerðarstjórn, í ljósi fyrirliggjandi úrkomuspár, að loka Helgustaðavegi utan þéttbýlis. 

Aðgerðastjórn fylgist grannt með framvindu mála og er fólk hvatt til að fylgjast með vef sveitarfélagsins og tilkynningum í fjölmiðlum.

Gert er ráð fyrir að stormurinn geri vart við sig á Austurlandi um og eftir hádegi. Veðrið mun síðan fara hratt versnandi á milli klukkan 15 og 18 og snúast í byl sem stendur yfir líklega til fyrramáls.

Þótt ekki sé gert ráð fyrir að vindhraðinn verði með því mesta á Austurlandi, gerir Veðurstofan ráð fyrir hvað mestri úrkomu hér eystra. Ekki er á þessari stundu ljóst hvort um rigningu, slyddu eða snjókomu verður að ræða á láglendi. 

Sjá lokanir Vegagerðarinnar

Sjá viðvörun Veðurstofu Íslands

Frétta og viðburðayfirlit