mobile navigation trigger mobile search trigger
04.08.2024

Veðurstofan varar við auknum líkum á skirðuföllum í nótt og fram eftir degi á morgun, mánudag 5. ágúst sökum mikillar úrkomu.

Viðvörun veðurstofunnar er hér á eftir.
"Nýleg spá gerir ráð fyrir að úrkomubakki komi að Austfjörðum seint á sunnudagskvöld 4. ágúst. Úrkoman teygir sig frá Borgafirði eystri alla leið að Öræfum með úrkomuákefð sem gæti náð 10 mm á klst., með meiri ákefð efst til fjalla. Á mánudaginn, 5. ágúst, fylgir svo annar úrkomubakki síðdegis með meiri ákefð bæði til fjalla og á láglendi. Það bætist töluverð úrkoma við á stuttum tíma á þessi svæði, ef veðurspá gengur eftir.
Veðurstofan varar við auknum líkum á skirðuföllum í nótt og fram eftir degi á morgun, mánudag 5. ágúst sökum mikillar úrkomu.
Austfirðir bætast við þau svæði sem nú þegar hefur verið varað við á skriðuföllum, eins og lesa má í frett frá því í gær (2. ágúst). En það eru Suðurland og Strandir. Uppsöfnuð úrkoma á þessum svæðum er mikil, með yfir 200 mm á Ströndum frá kl. 12 í dag, 3. ágúst, til þriðjudags 6. águst. Þá eru 430 mm á Mýrdalsjökli, 730 mm á Öræfum og víða yfir 130 mm til fjalla á Austfjörðum. Þar sem það hefur rignt mikið undanfarið má gera ráð fyrir að jarðvegur sé víða vatnsmettaður. Skriða hefur nú þegar fallið á veg í Árneshrepp, í gær 2. ágúst, og er von á að það sama geti gerst á áðurnefndum svæðum.
Úrkomunni sem spáð er í kvöld og nótt er mismunandi eftir svæðum. Norðaustanátt er ríkjandi í veðrinu sem gengur yfir, sem á það til að skila inn mikilli úrkomu inn á Seyðisfjörð. Spáin gerir ráð fyrir u.þ.b. 40 mm uppsafnaðri úrkoma á næstu 24 klst., sem er undir þröskuldsgildum sem notuð eru til að meta skriðuástand. Grunnvatn í brekkum fyrir ofan byggð Seyðisfjarðar er lág og er svæðið vandlega vaktað með fleiri mælitækjum. Á Eskifirði gerir spáin ráð fyrir 60-75 mm uppsafnaðri úrkomu á næstu 24 klst., og enn meira í Neskaupstað sem spáð er nema 95 mm/24 klst. Þessar tölur eru einnig undir þröskuldsgildum.
Þegar rignir mikið í fjöllunum má búast við vatnavöxtum í ám og lækjum og gætu farvegsbundnar aurskriður farið af stað. Auk þess geta jarðvegsskriður fallið þegar jarðvegur er vatnsmettaður. Grjóthrun getur líka átt sér stað þegar vatn losar um grjót í klettum og bergveggjum.
Vegakerfi á Ströndum, Austfjörðum og undir Mýrdalsjökli og Vatnjajökli liggja undir bröttum hlíðum og geta allar gerðir fyrrnefndra skriðna fallið á vegi. Skriðuvakt Veðurstofunnar vill benda fólki á að sýna aðgát þegar ferðast er undir bröttum hlíðum, horfa í kringum sig og forðast að dvelja lengi innan farvega. Auk þess þarf að hafa í huga að skriður geta fallið skyndilega líka eftir að mesta ákefð rigningar er afstaðin.
Til að halda utan um skriðuaðstæður í landinu er mikilvægt að tilkynna skiðuföll til Skriðuvaktar Veðurstofunnar sem geta svo metið aðstæður á ný. Það er hægt að hafa samband í síma 522-6000 eða nota skráningarform á vef Veðurstofunnar sem finna má undir „Tilkynna snjóflóð“ bæði á snjóflóðaforsíðu og eins undir Ofanflóð (listi t.v.) en þetta vefform dugar jafnt til skráninga á skriðuföllum og snjóflóðum. Gott er að hafa mynd af skriðum og nákvæma staðsetningu auk tímasetningu, hvenær skriða fór eða hvenær fólk varð vart við skriðu."

Frétta og viðburðayfirlit