mobile navigation trigger mobile search trigger
12.04.2024

Vegna umfjöllunar um breytingar í fræðslumálum

Í kjölfarið á boðuðum breytingum á fræðslumálum í Fjarðabyggð hefur umræða átt sér stað í fjölmiðlum og á samfélagsmiðlum. Sveitarfélagið hefur meðal annar átt samtal við stéttarfélög og Samband íslenskra sveitafélaga, auk þess er málefnið til umfjöllunar í Mennta- og barnamálaráðuneytinu. Beðið er eftir áliti ráðuneytisins, áður en málið er  tekið til umfjöllunar að nýju hjá Fjarðabyggð.

Vegna umfjöllunar um breytingar í fræðslumálum

Að gefnu tilefni vill sveitarfélagið koma því á framfæri að ákvörðunin er tekin í bæjarstjórn Fjarðabyggðar að undangenginn vinnu kjörinna fulltrúa sem hófst í september 2023 og staðið hefur síðan. Þar ákvað bæjarstjórn að hefja vinnu við að endurskoða fræðslumál með það fyrir augum að rýna í breytt fyrirkomulag á rekstri leik-, grunn- og tónlistarskóla með það fyrir augum að auka rekstrarlega samlegð og bæta faglegt starf. Starfsfólk sveitarfélagsins hefur unnið í samræmi við ákvörðun bæjarstjórnar hverju sinni. Ákvörðunin er bæjarstjórnar einnar og ósanngjarnt er að draga einstaka starfsmenn sveitarfélagsins í sviðsljósið vegna ákvarðana sem eru ekki þeirra, eins og dæmi eru um.

Starfsfólk fjölskyldusviðs hefur unnið að heilindum í þeim verkefnum sem þeim hefur verið falið í gegnum tíðina. Þá hefur það ávallt verið leiðarljós kjörinna fulltrúa Fjarðabyggðar að stuðla að umbótum á þessu sviði og horfa til framtíðar í takt við þróun og breytingar í samfélaginu hverju sinni, ekki síst í ljósi þess að sveitarfélögin fara með ábyrgð á málaflokknum hvert um sig. Þá er það vilji sveitarfélagsins að nýta gagnrýni til að bæta ferlið svo loka niðurstaðan verði góð, okkur öllum sem sveitarfélagið byggja til hagsbóta.  

Frétta og viðburðayfirlit