mobile navigation trigger mobile search trigger
14.11.2017

Vel heppnuð hátíð í tilefni af opnun Norðfjarðarganga

Um helgina voru Norðfjarðargöng formlega tekin í notkun. Af því tilefni var blásið til sannkallaðrar bæjarhátíðar í Fjarðabyggð.

Vel heppnuð hátíð í tilefni af opnun Norðfjarðarganga
Norðfjarðargöng voru vígð á laugardag. Mynd: Vegagerðin

Dagskráin hófst á föstudagskvöldið þegar rúmlega 100 manns tóku þátt í Gangahlaupi Þróttar og Austra. Þar gafst fólki einstakt tækifæri til að ganga, hlaupa eða hjóla í gegnum hin nýju göng. Eins og áður sagði var þátttaka í hlaupinu góð og voru þátttakendur þreyttir en ánægðir þegar komið var í mark á Eskifirði eftir að hafa lagt tæplega 9 km að baki.

Laugardagurinn hófst svo með fjölskyldudagskrá á Eskifirði sem ungmennafélagið Austri stóð fyrir. Þar var ýmislegt í boði, hægt var að fá andlitsmálun og leika sér í frábærri þrautabraut í salnum í íþróttahúsinu. Auk þess var öllum boðið uppá grillaðar pylsur og svaladrykk. Hápunktur dagskrárinnar var svo þegar sjálfur Íþróttaálfurinn kom í heimsókn og skemmti ungum sem öldnum.

Klukkan 13:30 hófst svo formlega vígsluathöfn Norðfjarðarganga. Gríðarlegur fjöldi fólks lagði leið sína að gangnamunanum Eskifjarðarmeginn til að vera viðstatt athöfnina. Áður klippt var á borðan flutti Páll Björgvin Guðmundsson, bæjarstjóri Fjarðabyggðar, stutt ávarp og sr. Davíð Baldursson og sr. Sigurður Rúnar Ragnarsson fluttu blessunarorð. Kór Reyðarfjarðarkirkju söng svo tvö lög við góðar undirtektir viðstaddra. Eftir að Hreinn Haraldsson, Vegamálstjóri hafði afhent Jóni Gunnarssyni, samgöngu- og sveitarstjórnarráðherra göngin formlega klippt Jón á vígsluborðan með dyggri aðstoð Önnu Hallgrímsdóttur frá Eskifirði og Stefán Þorleifssonar frá Neskaupstað ók Stefán ráðherranum svo fyrstum manna í gegnum í hin nýju göng. 

Að vígsluathöfninni lokinni bauð Vegagerðin íbúum til kaffisamsætis í reiðhöll hestamannafélagsins Blæs á Norðfirði, Dalahöllinni. Þar voru flutt ávörp og Karlakórinn Ármenn frá Norðfirði og Blásarasveit Fjarðabyggðar fluttu nokkur lög. Mikill fjöldi var samankominn í Dalahöllinni enda hátíðardagur.

Klukkan 17 hófust svo tónleikar SúEllen í Egilsbúð en sveitin fagnar um þessar mundir 30 ára útgáfu afmæli og þótti tilvalið að fagna því, sem og komu Norðfjarðarganga, með tónleikum. Fullt hús var á tónleikunum og þar fluttu SúEllen öll sín bestu lög með dyggri aðstoð frábærra gestasöngvara. Að loknum tónleikum bauð svo Síldarvinnslan hf. uppá glæsilega flugeldasýningu sem björgunarsveitin Gerpir  sá um.

Laugardagurinn endaði svo með dansleik í Egilsbúð þar sem fjöldi manns skemmti sér við undirleik Jónsa í Svörtum fötum og hljómsveitar fram á rauða nótt.

Á sunnudag hélt svo dagskrá helgarinnar áfram en þá var kvikmyndin Háski: Fjöllin rumska frumsýnd í Egilsbúð en uppselt var á frumsýninguna. Lokapunkturinn á dagskrá helgarinnar voru svo tónleikar Mezzoforte í kirkju- og menningarmiðstöðinni á Eskfirði á sunnudagskvöldinu.

Fjarðabyggð vill komu á framfæri þökkum til allra þeirra sem tóku þátt í að gera dagskrá helgarinnar eins glæsilega og vel heppnaða og raun bar vitni.

Fleiri myndir:
Vel heppnuð hátíð í tilefni af opnun Norðfjarðarganga
Gríðarlegur fjöldi var samankomin í Norðfjarðargöngum til að vera viðsatt vígsluna
Vel heppnuð hátíð í tilefni af opnun Norðfjarðarganga
Anna Hallgrímsdóttir og Stefán Þorleifsson aðstoðuðu Jón Gunnarssonar við að klippa á vígsluborðan
Vel heppnuð hátíð í tilefni af opnun Norðfjarðarganga
Heiðursmenn Vegagerðarinnar, Anna Elín Jóhannsdóttir og Helgi Sigfússon ásamt skæraberanum Smára Leví Williamssyni
Vel heppnuð hátíð í tilefni af opnun Norðfjarðarganga
Fólk byrjað að koma sér fyrir við rásmarkið í Gangahlaupi Þróttar og Austra
Vel heppnuð hátíð í tilefni af opnun Norðfjarðarganga
SúEllen hélt vel heppnaða tónleiki í Egilsbúð á laugardag.

Frétta og viðburðayfirlit