Hátíðahöld Fjarðabyggðar vegna 17. júní á Stöðvarfirði voru vel sótt og afar vel heppnuð. Skipulag dagskrárinnar í ár var í höndum Ungmennafélagsins Súlan á Stöðvarfirði.
Vel heppnuð hátíðahöld á 17. júní
Dagskráin var að vonum fjölbreytt. Jón Björn Hákonarson, forseti bæjarstjórnar flutti hátíðarræðu og að henni lokinni var komið að ávarpi fjallkonunar. Hlutverk fjallkonunar í ár var í höndum Margarette Sveinsbjörnsdóttur sem flutti ljóðið Stöðvarfjörður, eftir Björn Jónsson frá Kirkjubóli.
Að því loknu fluttu Jónatan Emil Sigþórsson, Einar Örn Valdimarsson og Kamilla Arnarsdóttir nokkur lög ásamt nemendum úr tónlistarskólum Fjarðabyggðar, þeim Gunnari Bjarma Borgarsyni, Þóri Snæ Sigurðssyni og Emblu Gabríelu Lúkasardóttur Stencel, á trommur spilaði svo Stefán úr Chögma.
Að þessu loknu var áfram ljúf og notaleg stemmning við Salthúsmarkaðinn. Slökkvilið Fjarðabyggðar bauð gestum að skoða nýja bifreið slökkviliðsins. Hoppukastalar voru fyrir börnin, sápukúlufjör og andlitsmálun sem var í umsjón Grasrótarrenglar. Japis, félag eldri borgara á Stöðvarfirði buðu uppá veitingasölu í grunnskólanum á Stöðvarfirði og mætti þangað fjöldi manns.
Dagurinn var eins og áður sagði ákaflega vel heppnaður og vill Fjarðabyggð koma á framfæri þökkum til þeirra sem mættu, og ekki síður til félaga í Ungmennafélaginu Súlan sem áttu veg og vanda að skipulagi dagsins sem var til mikils sóma.