"Þetta hefur verið draumur minn lengi, að komast í landsliðið", segir Daníel Michal Grzegorzsson, nemandi í 9. bekk Grunnskóla Reyðarfjarðar en hann hefur nú verið valinn í landslið Íslands í fótbolta, 15 ára drengja og yngri.
,,Vera kurteis og með hausinn í lagi"
Daníel ásamt tveimur öðrum drengjum í Fjarðabyggð var valinn til að fara suður á svokallað hæfileikamót þar sem valdir eru 30 strákar af tæplega 70 til frekari æfinga og af þeim eru svo valdir 20 drengir í landslið Íslands 15 ára og yngri. Daníel Michal var einn af þeim og mun nú fara og taka þátt í UEFA U15 Development Tournament 2023, móti sem fram fer í Póllandi dagana 1. - 7. október nk.
Daníel segist hafa æft fólbolta lengi, frá því í leikskóla og hafi alltaf haft mikinn áhuga á íþróttinni. Hann segir að til þess að ná árangri þurfi að hafa hausinn í lagi, hafa stjórn á skapi sínu og sýna kurteisi í framkomu bæði gagnvart þjálfurum og leikmönnum, bæði liðsfélögum sem andstæðingum. "Þú þarft að láta taka eftir þér, með því að fylgja vel fyrirmælum þjálfarans, sýna hvað þú getur og vera kurteis".
Eins þurfi að huga vel að heilsunni, teygja vel eftir æfingar og borða vel og svo er svefninn mikilvægur. Daníel segir að í landsliðsumhverfinu sé mikil áhersla lögð á að góður og nægur svefn sé eitt af því mikilvægasta til að ná góðum árangri.
En auðvitað byggist árangurinn á æfingu því það er æfingin sem skapar meistarann segir Daníel Michal landsliðsmaður.
Frétt af heimasíðu Grunnskólans á Reyðarfirði