mobile navigation trigger mobile search trigger
31.01.2020

Verð fyrir skólamáltíðir og skóladagvist lægst í Fjarðabyggð

Samkvæmt athugun Verðlagseftirlits ASÍ í janúar 2020 er verð fyrir skólamáltíðir lægst í Fjarðabyggð og einnig heildargjöld fyrir skóladagvist og skólamáltíðir þegar horft er á 15 af stærstu sveitarfélögum landsins.

Verð fyrir skólamáltíðir og skóladagvist lægst í Fjarðabyggð

Verð fyrir eitt barn í skólavistun, með hádegismat og hressingu í Fjarðabyggð er 25.158 sem er 68% lægra en þar sem gjaldið er hæst. Sé miðað við að gjaldið sé greitt í 9 mánuði munar rúmlega 154.000 kr. á gjaldinu í Fjarðabyggð og þar sem hæsta gjaldið er greitt.

Þegar aðeins skólamáltíðir eru skoðaðar má sjá að lægsta verðið er greitt í Fjarðabyggð og munur um 76% á verðinu í Fjarðabyggð og þar sem þar er hæst. Fjarðabyggð og Vestmannaeyjar eru einu sveitarfélögin, af þeim 15 stærstu, sem ekki hækkuðu verð á skólamáltíðum á milli ára. Samanburðurinn var gerður á gjöldum fyrir skóladagvistun og skólamat í 15 stærstu sveitarfélögum landsins auk þess sem breytingar á gjöldum frá 1. janúar 2019-1. janúar 2020 voru teknar saman. Frétt um þetta má finna á heimasíðu ASÍ með því að smella hér.

Þá sýnir athugun verðlagseftirlits ASÍ líka að gjöld fyrir leikskólavist eru með þeim lægstu  í Fjarðabyggð þegar skoðuð eru 16 stærstu sveitarfélög landsins. Verðlagseftirlit ASÍ kannaði breytingar á gjaldskrám leikskóla og fæðis hjá 16 stærstu sveitarfélögum landsins frá 1. janúar 2019 til 1. janúar 2020. Frétt um þetta má finna á heimasíðu ASÍ með því að smella hér.

Á undanförnum árum hefur verið lögð á það áhersla að Fjarðabyggð verði í fararbroddi Íslenskra sveitarfélaga þegar kemur að málefnum fjölskyldna. Þessar niðurstöður sína, svo ekki verður um villst, að Fjarðabyggð er á réttri leið hvað það varðar.

Frétta og viðburðayfirlit