mobile navigation trigger mobile search trigger
03.10.2022

Sterkur Stöðvarfjörður - Íbúafundur

Íbúar fjölmenntu á íbúafund í grunnskólanum á Stöðvarfirði fimmtudaginn 17. september síðastliðinn. Þar sem drög að verkefnisáætlun fyrir verkefnið Sterkan Stöðvarfjörð lágu fyrir til umræðu og samþykktar. Um nokkurt skeið hefur verkefnisstjóri, Valborg Ösp Árnadóttir Warén, ásamt verkefnisstjórn unnið að mótun verkefnisáætlunarinnar á grunni skilaboða íbúaþings sem haldið var í mars sl. og stöðugreiningar verkefnisstjórnar.

Sterkur Stöðvarfjörður - Íbúafundur

Í verkefnisáætlun Sterks Stöðvarfjarðar er framtíðarsýn íbúa sett fram um byggðarlagið ásamt fjórum meginmarkmiðum og starfsmarkmiðum þeim tengdum. Meginmarkmið verkefnisins eru eftirfarandi:

  • Fyrirmyndar umhverfi
  • Samheldið samfélag
  • Öflugt atvinnulíf
  • Sterkir innviðir

Kristján Þ. Halldórsson, formaður verkefnisstjórnar og fulltrúi Byggðastofnunar, setti fundinn og bauð fundargesti velkomna til fundar. Hann hvatti íbúa til virkrar þátttöku í verkefninu og óskaði eftir frjóum umræðum um verkefnisáætlunina og málefni byggðarlagsins. Valborg Ösp kynnti því næst drög að verkefnisáætluninni og útskýrði vinnulag umræðuhópa á fundinum. Íbúum var skipt í fjóra hópa og hver þeirra rýndi meginmarkmiðin nánar og þau starfsmarkmið sem þeim tengdust. Í lok fundar höfðu allir þátttakendur haft tækifæri til að setja fram ábendingar/athugasemdir við öll markmiðin sem birtast í verkefnisáætluninni, meginmarkmið jafnt sem starfsmarkmið. Þá skrifuðu íbúar sig á lista yfir áhugasama aðila um framgang einstakra markmiða eftir því sem áhugi hvers og eins bauð. Þessir hópar eru mikilvægir fyrir verkefnisstjóra til skrafs og ráðagerða í framhaldinu.

Eftir góðan kaffisopa í lok fundar var öllum fundargestum safnað á sal til umræðu um verkefnisáætlunina. Fundargestir veittu verkefnisstjórninni umboð til að ljúka formlega við verkefnisáætlun Sterks Stöðvarfjarðar á grunni þeirra athugasemda sem fram komu í umræðuhópunum. Verkefnisáætlunin erlifandi skjal sem á eftir að taka breytingum eftir því sem verkefninu mun vinda fram. Gert er ráð fyrir því að íbúar rýni verkefnisáætlunina einu sinni á ári á íbúafundi og þá munu e.t.v. ný starfsmarkmið bætast við eða önnur taka breytingum eftir atvikum.

Fleiri myndir:
Sterkur Stöðvarfjörður - Íbúafundur

Frétta og viðburðayfirlit