Mánudaginn 2. maí sl. var skrifað undir verksamning við Launafl ehf. um framkvæmdir vegna fyrsta verkhluta á viðbyggingu við Leikskólann Dalborg á Eskifirði. Stefnt er að því að framkvæmdir hefjist nú í júní.
Verksamningur um viðbyggingu við Leikskólann Dalborg
Byggingin skiptist í tvo megin hluta, annars vegar leikskólabygginguna og hinsvegar tengibyggingu sem tengir hana við núverandi húsnæði. Áætluð heildarstærð byggingarinnar er um 450 m2.
Fyrirkomulag byggingarinnar verður í megin dráttum eftirfarandi:
Á 1. hæð Tengibyggingar er aðalinngangur, nýr inngangur að eldri leikskóla og inngangur í nýja leikskólabyggingu ásamt útihurð að garði. Þar eru 2 snyrtingar, önnur með aðgengi fyrir fatlaða og aðgangur að loftræstiklefa/tæknirýmu um fellistiga.
Ný leikskólabygging verður með tvær leikskóladeildir sem tengjast sameiginlegu fatahengi. Hvor um sig með stórri leikstofu og tveimur hvíldar‐ og leikrýmum. Einnig sameiginlegur salur, starfsmannaaðstaða og fathengi starfsmanna, ræsting og skrifstofur Í framhaldi af sameiginlegu fatahengi, austan megin verður yfirbyggt útileikrými
Samið var við Launafl EHF á Reyðarfirði á grundvelli útboðs. Gert er ráð fyrir því að framkvæmdir hefjist af fullum krafti nú í júní.
Það voru þeir Jón Björn Hákonarson, bæjarstjóri Fjarðabyggðar, og Magnús Helgason, framkvæmdastjóri Launafls sem skrifuðu undir verksamninginn „Það er gott að nú hafi tekist að koma viðbyggingu við Dalborg af stað. Þetta er langþráð verkefni, sem því miður hefur dregist of lengi að byrja á af ýmsum ástæðum. Nú munu framkvæmdir hefjast af fullum krafti í byrjun sumars, og vonandi eiga þær eftir að ganga vel.“ sagði Jón Björn Hákonarson, að lokinni undirskrift.