Föstudaginn síðastliðinn fór bæjarstjóri ásamt byggingarfulltrúa í vettvangsheimsóknir til að skoða alla þá uppbyggingu á íbúðar- og atvinnuhúsnæði sem á sér stað í sveitarfélaginu.
Vettvangsferð bæjarstjóra með byggingarfulltrúa um Fjarðabyggð
Byrjað var í Neskaupstað og voru verktakar heimsóttir og teknir tali. Við Strandgötu er Nestak að reisa þrjú einbýlishús, og við Hafnarbraut 38-40 rísa nú tvö tveggja hæða fjölbýlishús með alls 16 íbúðum sem Hrafnshóll ehf. byggir. Nestak er einnig að byggja atvinnuhúsnæði við Naustahvamm 58, þar voru menn í óðaönn að undirbúa að steypa plötuna, en stefnt er að því í þessari í viku. Þá var nýlega lokaúttekt kláruð fyrir fjögurra íbúða raðhúsi að Sæbakka 19 sem Búðingar ehf. reistu.
Frá Neskaupstað var svo haldið á Eskifjörð, þar sem ýmis uppbygging hefur átt sér stað að undanförnu. Við Strandgötu 98b, er íbúi á Eskifirði að reisa sér glæsilegt hús við sjóinn, ABC byggingar ehf. hafa verið að reisa falleg níu íbúða raðhús í Árdal og á athafnasvæðinu Dal er Guðni Þór Elísson að reisa iðnaðarhúsnæði.
Á Reyðarfirði rís einnig fjöldi íbúða, má þar nefna að Búðingar ehf. eru með í byggingu tvö parhús í Litlagerði fyrir leigufélögin Bríet og Brák. Í Brekkugerði er svo einbýlishús í byggingu. Við Stekkjartún eru svo þrjú einbýlishús í byggingu og er verktakinn af þeim HRMS Byggingar ehf. Við Búðarmel hefur byggingarfélagið Hrafnshóll nýlokið við byggingu fimm íbúða húss.
Á Fáskrúðsfirði rís meðal annars glæsilegt einbýlishús sem íbúi þar er að byggja sér.
Á Breiðdalsvík eru tímamót því fyrstu íbúðarhúsin eru þar í byggingu síðan 1993 eða í um 30 ár. Búðingar ehf. eru að byggja parhús fyrir leigufélagið Bríet. Við Sólheima rís svo glæsilegt einbýlishús sem íbúi á staðnum er að reisa sér og sinni fjölskyldu.
Í lok júní var tilkynnt um úthlutun stofnframlaga hjá HMS. Að þessu sinni var úthlutað til 12 íbúða í Fjarðabyggð sem munu rísa á Eskifirði, Fáskrúðsfirði og Reyðarfirði.
Hér hefur aðeins verið stiklað á stóru í þeirri uppbyggingu sem á sér stað í Fjarðabyggð. Þess má geta að í heildina þá eru 52 íbúðir í byggingu og eða áform um og 23 íbúðum hefur verið lokið og teknar í notkun það sem af er ári.
Inná heimasíðu HMS má finna mælaborði íbúðaruppbyggingar á landinu öllu.