Vígsla á minningarreit sem helgar minningu þeirra sem látist hafa við störf sín fyrir Síldarvinnsluna fór fram 25. ágúst í Neskaupstað.
Minningarreiturinn er reistur á grunni gömlu fiskimjölsverksmiðjunnar sem eyðilagðist í snjóflóði 20. desember 1974. Í því snjóflóði fórust sjö starfsmenn Síldarvinnslunnar. Auk þeirra sem fórust í snjóflóðinu hafa fimm aðrir starfsmenn látist við störf, þrír á sjó og tveir í landi.
Hvatamaður að reitnum er Hlífar Þorsteinsson, sonur Þorsteins Jónssonar sem lést af slysförum við störf sín þann 17. Júlí 1958, þá 23 ára.
Gunnþór Ingvason, forstjóri Síldarvinnslunnar, sagði í ávarpi sínu „Það er einlæg von forsvarsmanna Síldarvinnslunnar að minningareiturinn verði fallegur og friðsæll staður sem fólki þykir vænt um og beri virðingu fyrir. Það er sorgleg staðreynd að 12 menn hafa látist í störfum fyrir Síldarvinnsluna og vill fyrirtækið minnast þeirra með veglegum hætti.“
Að lokum veitti stjórnarformaður Síldarvinnslunnar styrk til Heilbrigðisstofnunar Austurlands.