Fjarðabyggð, Leigufélagið Bríet og Húsnæðis- og mannvirkjastofnun, hafa gert með sér viljayfirlýsingu um uppbyggingu á fjórum leiguíbúðum á Norðfirði. Um er ræða framhald af samstarfi þessara aðila en Fjarðabyggð gekk samhliða viljayfirlýsingunni frá samkomulagi um að fjórar íbúðir að Leynimel á Stöðvarfirði færu jafnframt inn í leigufélagið Bríet líkt og íbúðir að Réttarholti á Reyðarfirði.
Viljayfirlýsing um uppbyggingu á fjórum leiguíbúðum á Norðfirði
Fjarðabyggð er hluthafi í leigufélaginu Bríet og var fyrsta sveitarfélagið til þess að gerast hluthafi. Með yfirfærslunni færast öll réttindi og skyldur varðandi leigusamninga íbúa Leynimels, líkt og Réttarholts, yfir til Bríetar án breytinga á stöðu þeirra.
Leigufélagið Bríet er sjálfstætt starfandi leigufélag í eigu Húsnæðis- og mannvirkjastofnunar, stofnað af norrænni fyrirmynd og rekið án hagnaðarsjónamiða
Bríet mun í kjölfarið á viljayfirlýsingunni auglýsa eftir byggingaraðilum til samstarfs vegna kaupa á fjórum nýbyggingum á Norðfirði. Stefnt er að því að framkvæmdir geti hafist næsta vor ef samkomulag næst við byggingaraðila. Sveitarfélagið mun síðan tryggja aðgengi að viðeigandi lóðum vegna framkvæmdanna. Er þetta líkt og fyrri viljayfirlýsing sem sveitarfélagið stóð að með Bríet um byggingu leiguíbúða á Fáskrúðsfirði en verið er að vinna að útfærslu þess samkomulags.
Verkefni þetta er hluti af stefnu Bríetar er snýr að því að efla leigumarkaðinn á landsbyggðinni og stuðla að auknu öryggi á langtímaleigumarkaði.