mobile navigation trigger mobile search trigger
04.05.2022

Viljayfirlýsing um uppbyggingu leiguhúsnæðis í Fjarðabyggð

Í gær var ritað undir viljayfirlýsingu milli Fjarðabyggðar, Bríetar, Húsnæðis- og mannvirkjastofnunar, og verktakafyrirtækisins Búðinga um uppbyggingu og styrkingu leiguíbúðamarkaðarins í Fjarðabyggð.

Viljayfirlýsing um uppbyggingu leiguhúsnæðis í Fjarðabyggð
Frá undirrituninni sl. þriðjudag. Frá vinstri: Róbert Sigurvaldason, f.h. Búðinga ehf., Drífa Valdimarsdóttir, f.h. Leigufélagsins Bríetar, Sigurður Ingi Jóhannsson, innviðaráðherra, Jón Björn Hákonarson, bæjarstjóri Fjarðabyggðar og Hermann Jónasson, forstjóri HMS

Skrifað var undir viljayfirlýsinguna í Múlanum í Neskaupstað í gær. Í henni felst að nú í júní verður hafist handa við byggingu á fjórum íbúðum í Neskaupstað fyrir Leigufélagið Bríeti, og áætlað að þær verði afhentar í febrúar 2023.

Þá verði einnig hafist handa við byggingu á tveimur eignum á Breiðdalsvík seinnipart sumars og áætlað að vinnu við þær verði lokið haustið 2023. Það er verktaka fyrirtækið Búðingar ehf. á Fáskrúðsfirði sem mun annast framkvæmdir á báðum stöðum.  Þá var einnig skrifað undir samkomulag þess efnis að Bríet kaupi tvær íbúðir, sem nú er verið að klára við Stekkholt á Fáskrúðsfirði, sem Búðingar hafa unnið við að undanförnu.

Með þessu eru stigin fyrstu skref í samstarfi Fjarðabyggðar við Leigufélagið Bríet eftir að sveitarfélagið lagði þar inn íbúðir sem það átti. Með því varð Fjarðabyggð hluthafi í Bríet ásamt ríkinu.  Samstarfið hefur gefist vel og telja aðilar samkomulagsins eðlilegt að næsta skref sé að leggja í ennfrekari uppbyggingu leiguíbúðamarkaðsins í Fjarðabyggð og með samkomulaginu eru skref stigin í þá átt. Þá verður næsta verkefni að hefja undirbúning að byggingu leiguíbúða á Eskifirði og Stöðvarfirði og mun sú vinna hefjast nú í maí og stefnt að samkomulagi þess efnis á sumri komanda.

Fleiri myndir:
Viljayfirlýsing um uppbyggingu leiguhúsnæðis í Fjarðabyggð
Sitjandi frá vinstri: Eydís Ásbjörnsdóttir, forseti bæjarstjórnar Fjarðabyggðar, Róbert Sigurvaldason, f.h. Búðinga ehf., Drífa Valdimarsdóttir, f.h. Bríetar leigufélags, Sigurður Ingi Jóhannsson, innviðaráðherra, Jón Björn Hákonarson, bæjarstjóri Fjarðabyggðar og Hermann Jónasson, forstjóri HMS. Standandi: Hjördís Helga Seljan Þórodsdóttir, bæjarfulltrúi (L) og Rúnar Gunnarsson, bæjarfulltrúi (M)

Frétta og viðburðayfirlit