Um helgina fór fram fyrsta bikarmót vetrarins á snjóbrettum og jafnframt það fyrsta sem farið hefur fram á skíðasvæðinu í Oddsskarði. Þátttakendur komu víða að af landinu og kepptu við frábærar aðstæður.
Vinátta, gleði og samhugur
![Vinátta, gleði og samhugur Vinátta, gleði og samhugur](/media/bikarmot-oddsskardi-022106.jpg?w=600)
Alls voru 59 keppendur skráðir til leiks, 45 strákar og 14 stelpur, en keppt var bæði í brettastíl og bordercross.
Að sögn Dýrunnar Pálu Skaftadóttur, eins af skipuleggjendum mótsins, tókst það í alla staði vel. Aðstaða var með besta móti og gestir ánægðir með ferðina austur. Að keppni lokinni fór jafnframt stór hópur upp í Magnúsarskarð og renndi sér niður í Norðfjörð.
„Það sem einkennir svona mót er vináttan, gleðin og samhugur allra sem koma að mótinu. Það er kannski barist í brautinni en svo skemmta sér allir saman utan hennar og allur aldur hjálpast að. Það er bjútíið við brettamenninguna: samheldni og ánægjan af að deila áhugamálinu,“ segir Dýrunn Pála í viðtali um mótið á mellow.is.
Einnig má nálgast umfjöllun um mótið ásamt glæsilegum ljósmyndum á mellow.is.
Þá er verið er að ganga frá sjónvarpsþætti um mótið fyrir mellow TV sem birtur verður bráðlega og má eiga vona á frábærri umfjöllun ef marka má kynningarstiklu þáttarins á vefnum.