Um helgina fengum við heimsókn frá vinabæ fjarðabyggðar í Gravelines. Er þetta árleg heimsókn í tilefni Franskra daga og fara einnig fulltrúar frá Fjarðabyggð til Gravelines á Íslendingahátíð sem þar er haldin.
Gestir frá Gravelines
Að vana var tekið á móti gestunum með fjölbreyttri dagskrá. Voru snjóflóðavarnagarðarnir í Neskaupstað skoðaðir og fengu þau leiðsögn um þá og tilurð þeirra frá Smára Geirssyni. Safnahúsið var skoðað ásamt því að farið var í Randúlfsensjóhús á Eskifirði. Emilía Björk frá ungmennaráði Fjarðabyggðar hitti svo Elénore Rapaud fulltrúa í ungmennaráði Gravelines og kynnti fyrir henni hvaða hlutverki ungmennaráðið hefur í Fjarðabyggð.
Svo var haldið til Fáskrúðsfjarðar og farið á lokasýningu starfsfólks skapandi sumarstarfa sem ber nafnið ,,Minna en ekkert", þar fengu þau kynningu á verkunum frá listamönnunm sjálfum.
Á laugardeginum var siglt með björgunarbátnum Hafdísi út í Skrúð og fuglalífið þar skoðað. Þaðan var svo haldið í frönsku kapelluna þar sem fram fór helgistund og svo minningarathöfn við franska grafreitinn. Að lokum fór fram rósafleyting til minningar þeirra franskra sjómanna sem fórust við strendur Íslands.
Um kvöldið var svo hátíðarkvöldverður í boði bæjarstjórnar Fjarðabyggðar á Sumarlínu.